Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, gagnrýndi Svíþjóð, Danmörk og Bretland harðlega fyrir að koma aftan að Íslendingum í þeirri erfiðu baráttu sem þeir eiga í nú mitt í fjármálakreppunni.

Þetta kom fram á morgunverðarfundi með erlendum sendiherrum síðastliðin föstudag að því er danska viðskiptablaðið Börsen greinir frá og hefur sínar heimildir frá NTB fréttastofunni.

Ólafur Ragnar sagði um leið að þetta hlýti að þýða það að Íslendingar þyrftu að leita nýrra bandamanna þar sem eldri bandamenn léku okkur svo grátt.

„Norðuratlantshafið er mikilvægt fyrir Norðurlöndin, Bandaríkin og Stóra-Bretland. Það er staðreynd sem þessar þjóðir virðast hundsa núna. Því verður Ísland að verða sér út um nýja vini," er haft eftir forsetanum í Börsen.

Einu þjóðirnar sem fengu hrós frá forsetanum voru Norðmenn og Færeyingar sem forsetinn sagði að hefðu reynst sannir vinir í þessum erfiðleikum.