Vladímír Pútín, forseti Rússlands, útilokar ekki að hann taki að sér embætti forsætisráðherra landsins eftir að kjörtímabili hans lýkur á næsta ári. Í ávarpi á flokksráðstefnu Sameinaðs Rússlands, sem er stjórnmálaflokkur sem styður núverandi valdhafa í Kreml, sagðist hann ætla að leiða flokkinn í komandi þingkosningum. Hann sagði enn fremur möguleikann á því að hann taki við sem forsætisráðherra þegar forsetatíð hans lýkur "raunhæfan" , tæki rétti maðurinn við af honum. Fjárfestar réðu sér ekki fyrir kæti þegar ummælin spurðust út og gengi hlutabréfa hækkaði í Moskvu.

Ummæli Pútíns í gær eru enn ein vísbendingin um að forsetinn hyggist vera með alla þræði í rússneskum stjórnmálum í hendi sér eftir að hann lætur af embætti næstkomandi mars, en stjórnarskrá landsins meinar forseta að sitja lengur en tvö kjörtímabil í senn. Pútín hefur áður ýjað að því að hann kynni að bjóða sig aftur fram í forsetakosningunum árið 2012.

Síðan Pútín kunngjörði að Viktor Zúbkov tæki við sem forsætisráðherra þann 12. september, hefur Micex-vísitalan hækkað um átta prósent. Líklegt er að skipunin styrki stöðu Zúbkov fyrir forsetakosningarnar. Hann er 66 ára, sem er hátt á rússneskan mælikvarða, en trú manna er að fléttan sé til marks að Pútín hyggist stjórna bakvið tjöldin. Þróunin á hlutabréfamörkuðunum er til marks um traust fjárfesta, sem óttast afturhvarf til óreiðuástandsins á tíunda áratug síðustu aldar þegar Boris Jeltsín var við völd.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.