Magnús Örn Guðmundsson, forstöðumaður hjá sjóðastýringarfyrirtækinu Stefni, hyggst bjóða sig fram í oddvitasætið í prófkjöri sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi í febrúar. Magnús er forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs.

Ásgerður Halldórsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna og bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, gaf það út í byrjun árs hún ætli ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi setu eftir þriðja kjörtímabilið sitt. Magnús er sá fyrsti sem býður sig formlega fram í oddvitasætið. Árni Helgason hefur einnig verið orðaður við bæjarstjórastólinn en hann hvorki staðfesti né neitaði mögulegu framboð í samtali við mbl.is . Þór Sigurgeirsson hefur einnig verið nefndur í umræðunni um næsta oddvita Sjálfstæðisflokksins úti á nesi.

Magnús Örn Guðmundsson
Magnús Örn Guðmundsson

Magnús segist leggja áherslu á lága skatta, hagkvæman rekstur, skilvirka stjórnsýslu, hátt þjónustustig og forgangsröðun framkvæmda. Í tilkynningu segir hann Seltjarnarnesbæ hafa notið þeirrar gæfu að hafa gert hlutina skynsamlega og vel í stað þess að eyða umfram efni í gegnum árin.

„Hækkun launa opinberra starfsmanna umfram almenn laun og hækkun lífeyrisskuldbindingar hafa verið afar krefjandi og heimsfaraldur þyngt róðurinn enn frekar. Vel hefur tekist að stýra sveitarfélaginu í gegnum þessar áskoranir og aukning skulda er hófleg en engin langtímalán voru tekin á síðasta ári. Raunar er Seltjarnarnesbær í öfundsverði stöðu þegar kemur að skuldaviðmiði sveitarfélagsins, ekki síst þegar búið er að taka tillit til samninga ríkisins og Reykjavíkurborgar við bæinn,“ segir Magnús.

Á miðvikudaginn var fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2022 samþykkt á bæjarstjórnarfundi, en hún fól meðal annars í sér hækkun á útsvari úr 13,7% í 14,09%. Sjálfstæðismenn voru margir ósáttir við þessa breytingu en aðeins einn bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna, Bjarni Torfi Álfþórsson, studdi þessa skattahækkunartillögu minnihlutans. Magnús var mjög mótfallinn hækkuninni og í bókun sem hann lagði fram á fundi bæjarstjórnar sagði hann útsvarshækkunina „algjöra vitleysu“. Auk þess sakaði hann Bjarna Torfa um að hafa stungið samherja sína í bakið.