Beðinn um að meta stöðu byggingageirans eins og staðan sé í dag, segir Vignir Steinþór Halldórsson, stjórnarformaður byggingarfélagsins MótX, sem er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, að það sé verið að framleiða fullt af húsnæði en að hans mati sé hins vegar ekki verið að framleiða réttu vöruna.

„Eins og allir vita þá framleiðir maður ekkert vöruna samdægurs í þessum bransa. Hjarðhegðun hefur alltaf verið mikil í þessum bransa. Sem dæmi má nefna að undanfarið hefur átt sér stað mikil umræða um að það vanti litlar íbúðir og þá stökkva allir til og fara að byggja slíkar íbúðir. En svo eftir þrjú ár gæti verið að umræðan snúist um að það vanti fimm herbergja íbúðir og þá fara allir að byggja slíkar íbúðir. Mér finnst að blöndunin innan geirans mætti vera meiri. Menn eru almennt alltaf að einblína á sömu hlutina.

Eins er það skrýtið við úthlutun lóða og í skipulagi sveitarfélaga, að þá er okkur, verktakafyrirtækjunum, aldrei treyst fyrir því hvað sé besta markaðsvaran. Sveitarfélagið ákveður t.d. að byggja eigi 2.700 fm hús með ákveðið mörgum íbúðum. Verktakinn fær ekkert um það að segja hve margar íbúðirnar eigi að vera innan þessara fermetra. Í nýjasta verkefni okkar í Reykjavík var skilyrði borgarinnar að 30% íbúðanna þyrftu að vera að ákveðinni stærð, önnur 30% af annarri stærð, enn önnur 30% af vissri stærð og svo máttum við ráða stærðinni á þeim 10% sem eftir stóðu. Til þess að kóróna kvaðirnar þá er okkur skipað að 20% íbúðanna færu í félagslega kerfið. Við ráðum því litlu um okkar verkefni sjálfir, því skipulagið bannar okkur það. Hönnunarvaldið er nánast alfarið komið til sveitarfélaganna sem er hálfgalið. Forsjárhyggjan í þessu öllu saman er svakaleg og það á við nánast hvar sem drepið er niður fæti í bransanum.

Við teljum okkur það færa að við getum ákveðið hvað við teljum vera réttu vöruna í hvert sinn, upp á að geta svo selt hana síðar meir. Áður fyrr var þetta ekki svona, en það má segja að þetta hafi aukist í takt við aukna skriffinnsku innan bransans. Kjörnir fulltrúar eru meira og minna farnir að stjórna þessum geira og þ.a.l. verðlagi, framboði og stærð íbúða. Við viljum eðlilega hafa meira um hlutina að segja. Skriffinnskan er komin út fyrir öll velsæmismörk. En vonandi horfir til betri vegar í kjölfar fyrrnefndrar einföldunar regluverks. Það þarf að vinda ofan af þessu og ég er bjartsýnn á að það verði gert."

Erfitt hefur verið að dæma af hinum ýmsu fréttum sem fjalla um húsnæðismarkaðinn hvort almennt séð sé offramboð eða skortur á íbúðahúsnæði á markaðnum. Hvernig sérð þú stöðuna?

„Ég tel að við séum komin á beinu brautina. Ég get ekki séð að það sé einhver mikill skortur né að það sé mikið offramboð. En svo má auðvitað velta fyrir sér hvort við séum að framleiða réttu vöruna. Við höfum tekið ákvörðun um að einblína á að byggja meira í úthverfunum og fylgja svokallaðri „green field" stefnu.

Við höfum ekki viljað fara mikið inn í þéttingar- og þróunarverkefni, því þá þurfum við ekki að rífa niður og brjótast inn í hverfi. Við viljum heldur vera á jaðrinum á tómum lóðum. Það geta komið upp svo mörg vandamál í þessum þéttingar- og þróunarverkefnum, t.d. varðandi grenndarkynningar og annað slíkt. Auk þess eru skipulagsyfirvöld enn lengur að fara yfir þessi verkefni. Flækjustigið verður því allt annað og meira."

N ánar er rætt við Vigni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .