Geir H. Haarde, forsætisráðherra sækir fund norrænu forsætisráðherranna um alþjóðavæðingu og áhrif hennar í bænum Riksgränsen í Norður-Svíþjóð dagana 8.–9. apríl.

Fundinn sækir einnig Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra sem staðgengill samstarfsráðherra Norðurlanda, auk starfsmanna. Þetta kemur fram á vef forsætisráðuneytisins.

Tveir sérstakir gestir ráðherranefndarinnar koma einnig til fundarins frá Íslandi, ritstjóri Fréttablaðsins og aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Alls verða 7 manns í hópnum. Ráðherra fer af landi brott síðdegis 7. apríl og kemur heim að kvöldi 9. apríl. Flugvél frá flugfélaginu Erni hefur verið leigð til fararinnar. „Með því sparast 1-2 ferðadagar á mann. Lauslega áætlaður kostnaðarauki miðað við að fljúga í áætlunarflugi er um 8-900 þús. krónur,“ segir á vef forsætisráðuneytisins.

Forsætisráðherra hefur einnig þekkst boð Memorial-háskólans í St. John's á Nýfundalandi, Kanada, um að flytja árlegan hátíðarfyrirlestur kenndan við John Kenneth Galbraith 15. apríl nk.

Í þeirri heimsókn mun ráðherra funda með forsætisráðherra Nýfundalands og Labradors og undirrita samstarfsyfirlýsingu milli fylkisins og Íslands.  Skipulögð hefur verið viðamikil dagskrá fyrir ráðherra dagana 14. - 16. apríl í St. John´s, þar sem m.a. er gert ráð fyrir tveimur fyrirlestrum, þátttöku í málstofum í hagfræði- og stjórnmálafræðideildum Memorial-háskóla, viðtölum við kanadíska fjölmiðla og fundi í hafrannsóknastofnun Nýfundnalands.

Ráðgert er að ráðherra verði á Nýfundnalandi frá 13. til 16. apríl en hann verður einnig ræðumaður við sérstaka athöfn við Brandeis-háskóla í Boston 11. apríl. Ferðaáætlun ráðherra gerir ráð fyrir brottför frá Íslandi 10. apríl og heimferð 16. apríl.

Vegna óvenjumikilla skuldbindinga forsætisráðherra á erlendum vettvangi fyrrihluta aprílmánaðar, tók varamaður sæti hans á Alþingi 2. apríl en ráðherra sat sem kunnugt er leiðtogafund NATO í Búkarest dagana 2.–4. apríl sl.

Forsætisráðherra verður til svara í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi 7. apríl og 17. apríl en verður einnig tiltækur á Alþingi 10. apríl.  Hann tekur formlega sæti á Alþingi að nýju 17. apríl.

Eins og ævinlega er dagskrá forsætisráðherra skipulögð með fyrirvara um óvæntar breytingar.