Stjórnvöld sóttust ekki eftir þeirri stöðu að vera búin að taka yfir stærstu banka landsins. Ekki fremur en stjórnvöld í Bandaríkjunum eða Bretlandi sóttust eftir víðtækari hlutverkum í atvinnulífi og fjármálakerfum þeirra landa.

Þetta kom fram í ávarpi Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á viðskiptaþingi sem nú stendur yfir.

„Þetta er ekki óskastaða fyrir neinn í þróuðum nútímasamfélögum. Það vil ég undirstrika hér,“ sagði Jóhanna..

„Ef ríkisstjórnin og við stjórnmálamennirnir hefðum haft raunverulegt val væri atvinnulífið hér áfram að mestu í höndum einkaaðila og stjórnvöld einbeittu sér að því að byggja hér upp velferðarþjónustu, menntun og heilbrigt viðskiptaumhverfi.“

Þá sagði hún eitt af helstu viðfangsefnum stjórnvalda nú vera að koma fjármálakerfi landsins í það horf að það geti stutt við heimilin og fyrirtækin í landinu. Þar hafi vel miðað síðustu vikur og sagðist Jóhanna vera bjartsýn um að bankarnir í landinu verði orðnir vel starfhæfir innan einungis fárra vikna.

Jóhanna sagði að of margir aðilar hefðu komið að ákvarðanatöku á sviði eftirlits á fjármálamörkuðum og það hefur gert það ómarkvissari en ella.

Hún sagði að horfa þyrfti til þess að sameina ráðuneyti og stofnanir þvert á ráðuneyti og fækka yfirstjórnum þeirra.