Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi í morgun að það væru mikil vonbrigði að stýrivextir skyldu ekki hafa lækkað hraðar en raun bæri vitni.

Hún tók þó fram að hún væri bjartsýn á að vextirnir yrðu komnir niður í eins stafs tölu nú með haustinu.

Jóhanna var þarna að svara fyrirspurn Péturs H. Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokks.

Jóhanna sagði að veik króna og það að gjaldeyrir skilaði sér ekki inn til landsins - hefði orðið til þess að peningastefnunefnd Seðlabankans hefði ekki treyst sér til að lækka stýrivextina í dag.

„Þetta tvennt og ýmsir óvissuþættir bæði varðandi bankana og Icesave-samningana [eru] þess valdandi að peningastefnunefnd hefur ekki treyst sér til að lækka stýrivextina á þessum degi," sagði hún.