Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, greindi frá því á blaðamannafundi fyrir skömmu að Norðurlöndin ættu að koma Íslandi til aðstoðar. Þetta kemur fram í frétt á vef danska viðskiptablaðsins Börsens.

„Við munum að sjálfsögðu óska eftir því að Norðurlöndin styðji við bakið á íslenskum vinum okkar og við gerum hvað við getum," sagði Anders Fogh Rasmussen við hóp alþjóðlegra blaðamanna.

Aðspurður um hvað í þessu fælist sagði Rasmussen að þessi stuðningur ætti ekki aðeins að vera siðferðilegur heldur einnig fjárhagslegur.

Hann ítrekaði að danski Seðlabankinn hafi áður verið búinn að tilkynna um lánamöguleika fyrir íslenska Seðlabankann.

Samkvæmt upplýsingum danska forsætisráðuneytisins vitnar forsætisráðherrann í einn af lánamöguleikum Seðlabanka Íslands sem danski Seðlabankinn hafði áður „tilkynnt um”.