Geir H. Haarde forsætisráðherra sagðist á Alþingi í dag ekki geta upplýst um það með hvaða hætti ríkisstjórnin myndi koma að gerð kjarasamninga. "En auðvitað koma lagabreytingar og önnur efnisatriði til umfjöllunar og umræðu hér á Alþingi þegar þar að kemur."

Það var Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sem kallaði eftir upplýsingum um það hvernig ríkisstjórnin hygðist koma að gerð kjarasamninga.

Geir sagði að miðað við það sem hann hefði heyrt um kjarasamningsgerðina í fjölmiðlum þá væri það jákvætt að gera ætti sérstakt átak til að lyfta þeim lægstlaunuðu. Einkum þeirra sem ekki hefðu notið launaskriðs. Hann sagði að slík niðurstaða yrði mjög jákvæð og mjög til eftirbreytni þegar kæmi að því að semja við opinbera starfsmenn.