„Kostirnir við sjálfstæðan gjaldmiðil vega upp gallana og krónan felur í sér meiri sveigjanleika fyrir Ísland en ef við værum aðilar að myntbandalagi."

Þetta kom fram í máli Geirs H. Haarde forsætisráðherra á alþjóðlegu málþingi sem haldið var í Lundúnum.

Með upptöku evru væru ákvarðanir teknar í Frankfurt og telur Geir að bankastjórn Evrópska seðlabankans tæki lítið tillit til aðstæðna á Íslandi.

Málþingið bar nafnið: The Euromoney Borrowers  Forum, eins og fram kom á vb.is í gær. Þar komu saman lánveitendur og fjárfestar úr ýmsum geirum fjármálalífsins.

Í opnunarræðu málþingsins fjallaði Geir um stöðu Íslands og framtíðarefnahagshorfur landsins. Sagði hann stöðu landsins hafa styrkst gríðarlega í kjölfar EES-samningsins, einkavæðingar ríkisfyrirtækja og markvissra skattalækkana undanfarinna ára.

Krónan veikari en hún á skilið

Geir sagði að ákveðins ójafnvægis hefði gætt undanfarið í efnahagslífi landsins. Lausafjárskortur og aukin verðbólga, sem er yfir mörkum Seðlabankans, gefi ríkjandi ójafnvægi til kynna.

Núverandi efnahagslægð og gengislækkanir krónunnar koma ekki á óvart að mati Geirs. Hinn gríðarlegi hagvöxtur fyrri ára kallaði á ákveðinn samdrátt. Hann telur þó krónuna veikari en hún á skilið.

Geir sagði Ísland einnig glíma við svipuð vandamál og margar vestrænar þjóðir í kjölfar hækkana á matar- og olíuverði, samdráttar hjá bönkum og á fasteignamarkaði. Búast mætti við samdrætti á þessu ári og á því næsta. Framtíð Íslands væri þó björt þegar litið væri á heildarmyndina.

Hvetur gesti til að koma til landsins

Geir fjallaði einnig um baráttu við lausafjárkreppu og nefndi aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þeim efnum.

Í ræðu sinni sagði Geir að sú útreið sem Ísland hefði fengið í fjölmiðlum ytra byggðist á takmörkuðum rannsóknum og vanþekkingu. Hvatti hann því gesti til að koma til Íslands og kynna sér aðstæður af eigin raun.