Geir H Haarde, forsætisráðherra hvatti fólk til að minnka við sig, ekki taka lán nema brýna nauðsyn beri til og spara við sig bensín ef það getur á morgunvaktinni á Rás 2 í morgun en frá þessu er greint á vef Ríkisútvarpsins.

Þar kemur fram að Geir er engu að síður bjartsýnn á að verðbólga hjaðni á næstu mánuðum. Hann segir að ekki hafi komið til tals að afnema olíugjaldið heldur hafi verið uppi hugmyndir um að lækka það. Olíugjaldið hafi ekki hækkað í ein 4 ár og því megi ekki rekja hækkun eldsneytisverðs til þess.

„Það er nauðsynlegt að allir fari varlega við þessar aðstæður, það hef ég margítrekað. Fólk á helst ekki að taka lán nema það hafi mjög brýna þörf fyrir það. Fólk á að reyna að minnka aðeins við sig, draga úr bensíneyðslu ef það er hægt og sýna bara almenn skynsemisviðbrögð við þessu óvænta og óþægilega ástandi sem upp hefur komið. Ég hlustaði hér á einn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar í þessum þætti fyrir helgi. Ég heyrði ekki betur en að hann vildi grípa inn í með svona gamaldags niðurgreiðslum í landbúnaðinum, koma inn í verðmyndunarferlið þar og með þess háttar atriði, sem ekki er gert lengur. Þetta eru úrelt gamaldags efnahagsviðbrögð," segir Geir.

Aðspurður um hvort til greina komi að fella niður olíugjaldið segist Geir ekki hafa heyrt neinn leggja til að gjaldið verði fellt niður. Það hafi verið uppi hugmyndir um að lækka það. Hafa verði í huga að hækkun á útsöluverði á olíu sé ekki olíugjaldinu að kenna því það hafi verið óbreytt í um 4 ár.

„Þannig að hækkunin á þessu, bæði olíu og bensíni, er öll aðflutt og þá eru náttúrulega ekki helstu og bestu viðbrögðin sú að lækka innlendu gjaldtökuna heldur verða menn að laga sig að þessu með því að stýra sinni notkun, draga úr henni," segir Geir H. Haarde, forsætisráðherra.