Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hvetur til að 3,5% raunávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna verði endurskoðuð í þeim tilgangi að koma skuldugum heimilum til bjargar. Hún vill að lífeyrissjóðir lækki vexti á húsnæðislánum. Þetta sagði Jóhanna í viðtali í Ísland í dag í gær.

Hún sagði að ef ekki er farið í almennar niðurfærslur skulda líkt og Hagsmunasamtök heimilanna leggja til þá myndi lítill kostnaður lenda á lífeyrissjóðunum.

„Vaxtastigið er hátt í landinu.Lífeyrissjóðirnir ræða nú þessa stöðu í sínum hópi. Ég ætla ekki að fyrirfram að gefa mér hvernig þeir myndi gera það. Þeir eru með háa ávöxtun, 3.5% ávöxtun,“ sagði Jóhanna aðspurð um hvert hlutverk lífeyrissjóðanna yrði í aðgerum til að koma skuldugum heimilum til bjargar.

Jóhanna sagði að aðgerðir af hálfu sjóðanna yrðu framkvæmd af lífeyrissjóðunum sjálfum en ekki með lagasetningu. „Þeir myndu þá leggja til lækkun á húsnæðislánum.“

Umræða um raunávöxtunarkröfu tekið U-beygju

Viðskiptablaðið fjallaði um 3,5% raunávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna í september síðastliðnum. Þá sagði Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, að vissulega sé rætt hvort lækka þurfi kröfuna, enda erfitt að ná þeirri ávöxtun við núverandi aðstæður. „Fyrir nokkrum árum var rætt um hvort 3,5% raunávöxtunarkrafa væri ekki alltof lág. Í dag er þetta komið á hinn endann,“sagði Árni.