Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi í dag að viðræður við Breta og Hollendinga um lán til greiðslu Icesave-reikninganna myndu halda áfram í næstu viku.

„Ljóst er að þær viðræður eru mun vandasamari en viðræður við vini okkar á Norðurlöndunum," sagði hún og vísaði þar til  þess að lán Norðurlandanna til Íslendinga myndi nema um 2,5 milljörðum Bandaríkjadala.

Jóhanna sagði enn fremur þegar hún vék orðum sínum að Icesave að mikilvægt væri að við stæðum við „alþjóðlegar skuldbindingar okkar á sama tíma og við náum ásættanlegri niðurstöðu og kjörum sem ekki verða okkur ofviða," sagði hún.