Geir H. Haarde forsætisráðherra mun í næstu viku sitja árlega ráðstefnu Íslensk-ameríska verslunarráðsins í New York og nota tækifærið til að halda blaðamannafund í Skandínavíu-húsinu þar sem helsta umfjöllunarefnið verður efnahagsmál á Íslandi í alþjóðlegu samhengi.

Gréta Ingþórsdóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra, segir að þátttaka Geirs á ráðstefnunni sé í samræmi við það sem talað var um á fundi hans með bankastjórum nýverið. Þar hafi ríkisstjórnin lýst sig reiðubúna til að aðstoða bankana við að koma réttum upplýsingum, á framfæri sem víðast, um stöðu efnahagsmála á Íslandi. „Þegar svona tækifæri býðst er sjálfsagt að grípa það," segir Gréta.

Ræðumenn á ráðstefnu Íslensk-ameríska verslunarráðsins eru auk Geirs: Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, Lárus Welding, forstjóri Glitnis, Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbanka Íslands, Jón Ásgeir Jóhannesson, starfandi stjórnarformaður Baugs, Ólafur Jóhann Ólafsson, framkvæmdastjóri Time Warner, Gregory Miller, prófessor í Harvard og Torsten Slok, hagfræðingur hjá Deutche Bank.