Forsætisráðherra telur ekki rétt að leggja mat á þýðingu fyrirliggjandi gagna um samskipti íslenskra og breskra stjórnvalda, þar með talið ráðherra, dagana 3.-6. október síðast liðinn, eða endursegja efni þeirra.

Þetta kemur fram í svari sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra gaf Siv Friðleifsdóttur alþingismanni í gær vegna skriflegrar fyrirspurnar.

Spurt um mögulega aðkomu forsætisráðherra að ákvörðunum um lánveitingar

Siv spurði um minnisblöð, hljóðritanir símtala eða önnur gögn í forsætisráðuneytinu sem gætu varpað ljósi á atburðarásina síðast liðið haust, sem deilt hefði verið um og hefði mögulega flýtt því að Bretar tækju Icesave-ábyrgðirnar í breska lögsögu.

Siv spurði einnig að því hvort að til væru gögn sem bentu til þess að forsætisráðherra hefði með einhverjum hætti komið að ákvörðun Seðlabankans um lánveitingar til Landsbankans og Kaupþings á fyrrnefndu tímabili. Forsætisráðherra svarar þessu ekki.

Gögnin hjá rannsóknarnefnd Alþingis

Í svari sínu vísar forsætisráðherra til þess að öll tiltæk gögn varðandi aðdraganda bankahrunsins hafi verið afhent rannsóknarnefnd Alþingis og það sé þeirrar nefndar að leita sannleikans um aðdraganda og orsakir hrunsins.

Vísað er til ákvæðis í lögunum um rannsóknarnefndina þar sem segi að opinberum aðilum sé óheimilt að veita aðgang að gögnum sem nefndin hafi fengið afhent, nema með samþykki nefndarinnar. Ráðuneytið sé þó reiðubúið að kynna utanríkisnefnd gögnin í trúnaði, enda geri rannsóknarnefndin ekki athugsemdir við það.