"Þessar tölur koma ekki mjög á óvart miðað við það sem á undan er gengið. Samtök atvinnulífsins hafa um nokkurt skeið staðið í opinberri markaðsherferð gegn ríkisstjórninni ekki síst til að verja hagsmuni stórfyrirtækja innan þeirra raða og m.a. sagt sig frá stöðugleikasáttmálanum, þvert á vilja annarra hagsmunaaðila á vinnumarkaði," segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra um niðurstöður könnunar MMR um stuðning stjórnenda í atvinnulífinu við ríkisstjórnina. Um 86% stjórnenda 300 stærstu fyrirtækja í landinu sögðust vera á andsnúnir í ríkisstjórninni. "Þetta er sannarlega dapurlegt þegar endurreisn efnahagslífsins krefst þess að burðarásar samfélagsins leggist saman á árarnar. Ég trúi því hinsvegar að stjórnendur stærstu fyrirtækjanna muni fljótlega sjá eins og aðrir, að sú braut sem ríkisstjórnin hefur markað, bæði hvað varðar endurreisn efnahagslífsins í samstarfinu við Aþjóðagjaldeyrissjóðinn og í umsóknarferlinu gagnvart ESB, sé skynsamlegasta leiðin úr úr þeim hremmingum sem langvarandi óstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leiddi yfir landið," segir Jóhanna. Hún segir öll merki um að ríkisstjórnin sé á réttri leið. "Flestir ef ekki allir erlendir greiningaraðilar eru sammála um að ríkisstjórnin sé á réttri leið og nú fari að styttast í hagvöxt á ný. Séu stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins virkilega farnir að sakna hagstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eins og niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna, hvet ég þá til að leggjast yfir niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis áður en lengra er haldið. Ríkisstjórnin kallar hér eftir sem hingað til eftir stuðningi þeirra og kröftum við endurreisnina."