Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í þjóðhátíðarávarpi sínu í dag að það væri samdóma álit allra ríkja ESB að íslenska ríkið bæri ábyrgð á Icesave-skuldbindingunum. Um þetta atriði sagði Jóhanna orðrétt:

"Þær ákvarðanir sem nú þarf að taka eru flestar erfiðari og þungbærari en orð fá lýst. Sú ákvörðun að ganga til samninga vegna skuldbindinga sem á okkur hvíla vegna Icesave reikninganna er afar erfið en óhjákvæmileg. Nauðsynlegt er að hafa í huga að það er samdóma álit allra ríkja Evrópusambandsins, þar á meðal okkar helstu vinaþjóða, að íslenska ríkið beri ábyrgð á þeim skuldbindingum sem hér um ræðir. Lögfræðilegar álitsgerðir bentu einnig til þess að engin leið væri fær til að útkljá þetta álitaefni fyrir dómi án samþykkis allra aðila. Það gæti því haft mjög alvarlegar afleiðingar að hafna skuldbindingunni einhliða.

Raunveruleg hætta væri á því að Ísland einangraðist á alþjóðavettvangi, markaðir myndu lokast og lánamöguleikar yrðu að engu. Slíkt myndi valda almenningi hér á landi og atvinnulífinu ófyrirsjáanlegum skaða til frambúðar."

Sjálfstæðið byggist ekki á einangrun

Forsætisráðherra vék einnig að sjálfstæði Íslands og sagði að það byggðist ekki á því að við stæðum einangruð og án samskipta við aðra. "Sjálfstæði okkar, eins og allra annarra þjóða, byggist ekki síst á því að við séum í góðum tengslum við alþjóðasamfélagið og tökum virkan þátt í starfi á vettvangi þess," sagði Jóhanna.