Geir H. Haarde forsætisráðherra vildi á Alþingi í dag ekki upplýsa frekar um aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Seðlabanka Íslands í efnahagsmálum. Hann ítrekaði að þessi mál væru til skoðunar en sagði að hvorki þingmenn né aðrir gætu vænst þess að fá svör við því hvað væri í farvatninu. Það væri ekki þeim málum til framdráttar að knýja á um svör.

Þetta kom fram í svari Geirs H. Haarde við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar, þingmanns Frjálslynda flokksins.

Geir tók fram að hlutirnir hefðu verið að snúast við frá aðalfundi Seðlabankans. Markaðir hefðu verið að þróast á hagstæðari veg og krónan hefði verið að styrkjast. Það væru jákvæð skilaboð.