Júlía Tímósjenkó, forsætisráðherra Úkraínu, lýsti því yfir í dag að hún væri sannfærð um að viðræður við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) myndu ganga vel og að stjórnvöldum í Kíev myndu fá  „umtalsverða” fjárhagsaðstoð frá sjóðnum.

Samkvæmt Reuters-fréttastofunni þá birtist tilkynning á vef stjórnvalda í dag um að Tímasjenkó hafi rætt við sendinefnd IMF í morgun.

Fram kemur í tilkynningunni að viðræðurnar hafi gengið vel og það væri mjög líklegt að Úkraínumönnum myndi berast fjárhagaðstoð frá sjóðnum.

Fram kemur í frétt Reuters að embættismenn innan úkraínska stjórnkerfisins hafi sagt að sjóðurinn væri reiðubúinn að lána stjórnvöldum í Kíev allt að 14 milljarða Bandaríkjadala til þess að koma á stöðugleika í hagkerfi landsins.

Lánsfjárkreppan í alþjóðamörkuðum hefur meðal annars leitt til þess að gjaldmiðill landsins hefur fallið mikið og úkraínski seðlabankinn hefur þurft að veita umtalsverðu fé inn í bankakerfið.

Sökum þessa hefur Úkraína meðal annarra ríkja leitað á náðir IMF en önnur Evrópuríki sem hafa átt í viðræðum við sérfræðinga sjóðsins vegna áhrifa lánsfjárkreppunnar á hagkerfi þeirra eru Ungverjaland, Ísland, og Serbía.

Segja má að rólegt hafi verið hjá sérfræðingum IMF undanfarin ár, að minnsta kosti miðað við oft áður. Hinsvegar færast æ fleiri á þá skoðun að sjóðurinn geti leikið mikilvægt hlutverk í þeirri sérstöku stöðu sem nú er kominn í alþjóðahagkerfinu og er talið líklegt að þeim ríkjum sækjast eftir aðstoð sjóðsins með einum eða öðrum hætti muni fjölga á næstunni.