Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í hádegisviðtali Stöðvar 2 í dag að ríkisstjórnin og Seðlabankinn, fyrir hennar hönd, ynnu að því hörðum höndum að fá lán til að auka gjaldeyrisforða bankans. „Við erum að vinna í þessu á fleiri en einum vettvangi úti á alþjóðamörkuðum og í samstarfi við aðrar stofnanir,“ sagði hann.

Geir vitnaði til orða sinna á þinginu í gær og ítrekaði að stjórnvöld hefðu sparað sér mikla peninga með því að hafa ekki hlaupið út á alþjóðlega fjármálamarkaðinn fyrir tveimur mánuðum, eins og lagt hefði verið til. Vextir hefðu nefnilega síðan þá lækkað sem og skuldatryggingaálag bankanna og ríkisins.

„Ef við erum að tala til dæmis um milljarða evra, sem er upphæð sem margir tala um í þessu sambandi, þá er hver prósenta í vexti af slíkri upphæð 1,200 milljónir króna á ári.“

Það skipti því máli á hvaða kjörum lán væru tekin. Hann kvaðst aðspurður ekki geta upplýst hvenær gengið yrði frá lántöku.