Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði aðspurður á Alþingi rétt í þessu að auðvitað væri það óvenjulegt að annar stjórnarfokkurinn skuli lýsa sig andvígan hrefnuveiðum. Það væri þó að mörgu leyti hreinlegra heldur en að fara í felur með slíka afstöðu. Ekki hefði verið tekið á þessu máli í stjórnarsáttmálanum.

Þetta kom fram í svari Geirs við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar, formanns VG. Steingrímur spurði Geir út í yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, um ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra um að heimila veiðar á 40 hrefnum á þessu ári. Í yfirlýsingunni kom fram að ráðherrar Samfylkingarinnar væru ekki sammála ákvörðun sjávarútvegsráðherra.

Steingrímur spurði hvort Geir teldi ganga að ríkisstjórnin hefði opinberlega tvær stefnur varðandi hrefnuveiðarnar. Geir svaraði því til að innan flestra flokka væru mismunandi sjónarmið varðandi hvalveiðar. „Það var ekki tekið á þessu máli í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og það var vitað að stjórnarflokkarnir tveir væru ekki á sömu línu í málinu,“ sagði hann. Málið væri á forræði sjávarútvegsráðherra sem fylgdi stefnu sem tekin hefði verið í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Fátækleg svör

Steingrímur kom aftur í pontu og sagði að sjaldan hefði fátæktin verið meiri í svörum forsætisráðherra. Hann spurði hvort það ætti almennt að vera þannig að ríkisstjórnin gæti haldið uppi algjörlega andstæðum sjónarmiðum svo lengi sem það væri ekki bannað í stjórnarsáttmálanum.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, tók í sama streng og spurði hvort tvær ríkisstjórnar væru í landinu. Geir svaraði því til að þá ætti Kristinn erfitt að gera það upp við sig hvorri ríkisstjórninni hann væri á móti.