Síðdegis mánudaginn 27. október munu forsætisráðherrar Norðurlanda halda sérstakan fund í Helsinki um alþjóðlegu fjármálakreppuna.

Fundurinn verður haldinn í tengslum við 60. Norðurlandaráðsþingið sem hefst sama dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Norðurlandaráði.

Þar kemur fram að á fundinum mun Geir H. Haarde forsætisráðherra Íslands gera starfsbræðrum sínum, þeim Jens Stoltenberg, Anders Fogh Rasmussen, Matti Vanhanen og Fredrik Reinfeldt grein fyrir þeim vanda sem upp er kominn á Íslandi í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar.

Fundur norrænu forsætisráðherranna verður haldinn síðdegis mánudaginn 27. október í Helsinki.

Þriðjudagsmorgun 28. október munu norrænu forsætisráðherrarnir funda um önnur mál auk þess sem haldinn verður sameiginlegur fundur forsætisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja.

Þá munu norrænu forsætisráðherrarnir taka þátt í þingumræðum með leiðtogum stjórnarandstöðuflokkanna á Norðurlöndum.