„Að gefnu tilefni er rétt að taka það fram að íslensk stjórnvöld hafa engar áætlanir uppi um að falla frá áformum um að tryggja innstæður á bankareikningum hérlendis.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu í dag.

Þar kemur fram að orðrómur um að íslensk stjórnvöld muni gefa þessi áform eftir í samningum við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn sé rangur.

„Innstæðueigendur þurfa ekki að óttast um fjármuni sína sem geymdir eru á bankareikningum innlánsstofnana hérlendis. Í þeim efnum hefur ekkert breyst frá því að þessu var fyrst lýst yfir af hálfu ríkisstjórnarinnar,“ segir í tilkynningunni.