Forsætisráðuneytið hefur markað stefnu um notkun hugbúnaðar sem leggur áherslu á að um sé að ræða svokallaðan „opin og frjálsan” hugbúnað, þ.e. hugbúnað sem byggist á forritunarkóða sem höfundar hafa valið að gera opinberan og aðgengilegan fyrir alla.

„Tilkoma frjáls hugbúnaðar hefur skapað samkeppni á markaði sem áður einkenndist af yfirburðastöðu tiltölulega fárra birgja. Mikilvægt er að stjórnvöld standi ekki í vegi fyrir þessari þróun, heldur styðji hana og geri áframhaldandi þróun mögulega. Notkun á frjálsum hugbúnaði getur minnkað bindingu stjórnvalda, fyrirtækja og almennings við einstaka birgja og þjónustuaðila, og þar með stuðlað að valfrelsi,” segir í stefnumörkun ráðuneytisins.

Ekki of háðir einstökum framleiðendum

Í stefnumörkuninni, sem nær til allra ríkisstofnana og félaga sem rekin eru fyrir opinbert fé, er brýnt fyrir þeim að leitast við að velja hugbúnað sem byggi á opnum stöðlum, hvort sem um er að ræða staðlaðan búnað eða sérsmíðaðan. Er að því stefnt að opinberir aðilar verði ekki of háðir einstökum hugbúnaðarframleiðendum og þjónustuaðilum.

Þá er stefnt að því að hugbúnaður sem smíðaður er og fjármagnaður af opinberum aðilum verði endurnýtanlegur. Einnig skal stuðlað að því að nemendur í menntastofnunum landsins fái tækifæri til að kynnast og nota frjálsan hugbúnað til jafns við séreignahugbúnað.