*

þriðjudagur, 21. janúar 2020
Erlent 14. október 2019 13:04

Stjórnarformanni Boeing gert að hætta

Stjórn bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing ákvað fyrir helgi að skipta um formann.

Ritstjórn
Dennis A. Muilburg ,forstjóri Boeing, er ekki lengur formaður stjórnar félagsins.

Stjórn Boeing var kölluð saman síðastliðinn föstudag með litlum fyrirvara og vakti athygli að Dennis A. Muilenburg, forstjóra og stjórnarformanni bandaríska flugvélaframleiðandans, var ekki meðal fundamanna. Ástæða fjarverunnar komi hins vegar í ljós strax að fundinum loknum þegar stjórnin tilkynnti ákvörðun sína um að svipta Muilenburg formannssætinu. New York Times greinir frá þessu. Dennis Muilenburg mun þó áfram gegna stöðu forstjóra félagsins. 

Frá því að vandræði Boeing hófust síðastliðinn vetur hefur stjórnin staðið með Muilenburg og neitað að gera breytingar á stjórn félagsins. Krafa hluthafa um afsögn hefur hins vegar aukist hratt síðastliðnar vikur samhliða því sem vísbendingum fjölgar um að biðin eftir að kyrrsetningu 737 MAX vélana verði aflétt kunni dragast enn á langinn. Ný vandamál hafi komið upp í rannsókninni á flugslysunum tveimur þar sem 346 létu lífið. Boeing hefur þó ekki dregið til baka yfirlýsingu sína um að vélarnar verði aftur komnar í loftið fyrir lok ársins en æ fleiri efist um að sú tímasetning muni halda. 

David L. Calhoun, sem hefur leitt rannsóknina á flugslysunum, mun taka við sem formaður félagsins. 

Boeing greindi frá því á dögunum að kyrrsetning Max-vélanna hafi kostað félagið átta milljarða dollara. Þá hafa hlutabréf í félaginu fallið um 15% í verði frá því í mars sl. þegar síðara flugslysið átti sér stað. 

Blaðamaður New York Times hefur eftir heimildafólki á skrifstofu og í yfirstjórn Boeing, sem vilji ekki láta nafn síns getið, að vantraust á Muilenburg hafi aukist innan fyrirtækisins og starfsfólk óttist að bjartsýni hans um að málið fái farsæl endalok innan tíðar sé frekar byggð á óskhyggju frekar en rökum.

Stikkorð: Boeing 737 max