„Bústaður Orkuveitunnar í Riðvík stendur næst vatnsbólinu á Grámel og því mun hann víkja fyrstur en ákveðið hefur verið að rífa hann næsta sumar,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, í grein í Fréttablaðinu í dag.

Fréttablaðið hefur að undanförnu fjallað um málið og benti á að þrátt fyrir að Orkuveitan seldi eignir sem ekki tengdust kjarnastarfsemi félagsins væri forstjórabústaður Orkuveitunnar ekki settur á sölulista.

„Ákvæði um einkaafnot mín af bústaðnum í Riðvík er ekki að finna í ráðningarsamningi og vissi ég ekki á þeim tíma að bústaðurinn væri til. Sú hugmynd var rædd um þetta leyti að afhenda starfsmannafélagi Orkuveitunnar bústaðinn til útleigu fyrir félagsmenn. Bústaðurinn stendur á viðkvæmu vatnsverndarsvæði sem útilokaði þá hugmynd,“ segir Bjarni í greininni og bætir við að það hafi verið niðurstaða stjórnenda Orkuveitunnar að óráðlegt væri að selja einstaklingum land á svo viðkvæmum stað og missa þannig forræði yfir því til frambúðar.