Forstjórar hinna þriggja stóru bílaframleiðenda í Detroit – General Motors, Ford og Chrysler, munu í vikunni fara á fund Bandaríkjaþings og reyna að réttlæta 25 milljarða björgunarpakka frá þinginu til sinnar framleiðslugreinar. Formaður eins stærsta verkalýðsfélags Bandaríkjanna, United Auto Workers, mun einnig biðla til þingsins. Repúblikanar á Bandaríkjaþingi leggjast helst gegn björguninni. Reuters segir frá þessu.

Forstjóri Ford hefur sagt að afleiðingar þess að einn hinna stóru þriggja yrði gjaldþrota yrðu mjög slæmar. Hann sagði í samtali við CNBC að neytendur væru ólíklegri til að kaupa bíl af gjaldþrota fyrirtæki, sem myndi dýpka vandamálið enn frekar. Demókratar í öldungadeild Bandaríkjaþings lögðu upphaflega til 25 milljarða dollara pakkann.

Hækkandi eldneytisverð, lánsfjárkreppa og almennt hægari gangur í efnahagslífinu eru allt atriði sem komið hafa niður á bílaframleiðendum í Bandaríkjunum.