Laun og hlunnindi núverandi forstjóra HB Granda, Vilhjálms Vilhjálmssonar, námu alls 21,1 milljónum króna í fyrra reiknað á gengi dagsins í dag. Fyrrverandi forstjóri, Eggert Benedikt Guðmundsson, sem hætti störfum í lok júlí í fyrra, fékk alls 25,8 milljónir króna í laun og hlunnindi frá fyrirtækinu. Samtals fengu þeir því 46,9 milljónir króna í laun og önnur hlunnindi í fyrra.

Erfitt er að fullyrða nákvæmlega um mánaðarlaun Eggerts, því þótt hann hafi hætt störfum hjá fyrirtækinu í júlílok hóf hann ekki störf hjá N1 fyrr en í byrjun september. Sé miðað við sjö mánaða vinnu hjá HB Granda námu mánaðarlaun Eggerts 3,7 milljónum króna, en sé miðað við að hann hafi einnig fengið greidd laun í ágúst lækka mánaðarlaunin í 3,2 milljónir að meðaltali. Í fyrra námu mánaðarlaun hans 2,5 milljónum króna á gengi dagsins í dag.

Vilhjálmur hóf störf í september hjá HB Granda og sé miðað við að hann hafi unnið fulla fimm mánuði hjá fyrirtækinu í fyrra námu mánaðarlaun hans að meðaltali 4,3 milljónum króna.

Þá kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins að fjórir millistjórnendur hafi samtals verið með 66,7 milljónir króna í árslaun, sem þýðir að meðallaun hvers þeirra á mánuði hafi numið tæpum 1,4 milljónum króna.