Æðstu yfirmenn eins stærsta flugfélaga Bandaríkjanna, Continental Airlines, hafa samþykkt að vinna kauplaust út árið og þiggja ekki kaupauka, vegna þeirra þrenginga sem nú ríkja á fjármagnsmarkaði og bágs fjárhags flugfélagsins.

Fyrir skömmu var tilkynnt um að þrjú þúsund starfsmönnum félagsins yrði sagt upp störfum , en þeir eru 45 þúsund talsins, og að hátt í hundrað flugvélum verði lagt.

Flugrekstur í kreppu

„Flugrekstur er í kreppu. Rekstrarlíkanið gengur ekki upp miðað við núverandi eldsneytisverð og ríkjandi stöðu á mörkuðum. Fyrir vikið verðum við að gera breytingar,” sagði í tilkynningu frá félaginu.

Larry Kellner, stjórnarformaður félagsins og framkvæmdastjóri, og Jeff Smisek, forstjóri þess, segja að félagið verði að skera rösklega niður til að þrauka kreppuna.