Jim Farley, fjármálastjóri Ford, mun taka við forstjórastól bílaframleiðandans af Jim Hackett þann 1. október næstkomandi. Forstjóraskiptin fara fram í miðri 11 milljarða dollara endurskipulagningu félagsins sem á að bæta arðsemi og flýta tilfærslu í átt að rafbílum. Financial Times segir frá .

Hackett, sem kom frá Steelcase, sem framleiðir skrifstofuhúsgögn, árið 2017, hefur ekki tekist að auka hagnað eða ýta undir hlutabréfaverð fyrirtækisins. Gengi Ford hefur lækkað um meira en 35% síðan hann tók við en á sama tíma hefur S&P 500 vísitalan hækkað um tæplega 40%.

Farley hóf feril sinn hjá Toyota og starfaði síðar hjá Lexus. Hann hóf störf hjá Ford árið 2007 en síðan þá hefur hann verið yfir starfsemi félagsins í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku. Fyrirtækið náði metframleiðni í Evrópu undir hans stjórn.

Markmið Farley til meðallangs tíma er meðal annars að ná 10% hagnaðarhlutfalli í Norður Ameríku, stækka vörubílastarfsemi fyrirtækisins og standa vel að frumsýningum á nýjum týpum af F-150, Bronco og Mustang Mach-E.

Tekjur fyrirtækisins á öðrum ársfjórðungi námu 19,4 milljörðum dala sem er 50% fall frá fyrra ári. Ford tapaði 1,9 milljörðum dala sem er þó talsvert minna en fjárfestar höfðu spáð fyrir um.

Ford átti þegar undir högg að sækja áður en heimsfaraldurinn neyddi bílaframleiðendur að loka verksmiðjum sínum. Framleiðslan er nálægt því að komast í fyrra horf og fyrirtækið býst við hagnaði upp á 500 milljónir til 1,5 milljarða dollara á þriðja ársfjórðungi.