Heimir Fannar Gunnlaugsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi, en það er dótturfyrirtæki Microsoft sem annast þjónustu við íslenska viðskiptavini fyrirtækisins. Gert er ráð fyrir að hann komi til starfa um miðjan águstmánuð.

Heimir Fannar Gunnlaugsson.
Heimir Fannar Gunnlaugsson.

Heimir tekur við af Halldóri Jörgenssyni, sem verið hefur framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi undanfarin sjö ár. Halldór hefur verið ráðinn til höfuðstöðva Microsoft í Bandaríkjunum, en mun þó áfram verða með búsetu hér á landi.

„Ég hef verið ráðinn í það sem kalla má Surface-deildina í Microsoft,“ segir Halldór í samtali við vb.is. Vísar hann þar til Surface-spjaldtölvunnar sem fyrirtækið gaf út í fyrra, en salan hefur ekki verið í samræmi við væntingar. „Ég mun leiða sölu- og markaðssetningu á Surface í raun alls staðar annars staðar en í Bandaríkjunum. Ég hef sjálfur mikinn áhuga á tækjunum, en samkvæmt fjölmiðlum a.m.k. erum við ekki hátt skrifaðir á spjaldtölvumarkaði og ég er ekki ánægður með það. Ég setti mig því í samband við þá sem reka þessa deild og hef veri í samskiptum við þá undanfarna sex mánuði. Þetta samband þróaðist svo eðlilega í þá átt að mér var boðið þetta starf,“ segir Halldór.

Heimir Fannar býr yfir langri reynslu sem stjórnandi og ráðgjafi í upplýsingatæknigeiranum og hefur m.a. starfað fyrir ýmsa samstarfsaðila Microsoft. Hann hefur einnig starfað töluvert erlendis undanfarin ár og rekið þar eigin fyrirtæki með góðum árangri.