Jóhanna Waagfjörð hefur verið ráðin forstjóri Pennans í stað Helga Júlíussonar. Hún tók við sem framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar hjá Pennanum í febrúar á þessu ári.

Jóhanna Waagfjörð, framkvæmdastjóri Haga.
Jóhanna Waagfjörð, framkvæmdastjóri Haga.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Helgi tók við forstjórastarfinu árið 2009 og hefur leitt endurskipulagningu fyrirtækisins.

Fram kemur í tilkynningu frá Eignabjargi, dótturfélagi Arion Banka, sem á Pennann, að Jóhanna er þjóðhagfræðingur og með MBA-gráðu. Þá hafi hún starfað um árabil sem fjármálastjóri Haga. Áður starfaði hún sem fjármálastjóri hjá Scandsea International AB og hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins.

Jafnframt verða breytingar á stjórn Pennans. Jón Garðar Hreiðarsson tekur sæti í stjórn félagsins og verður stjórnarformaður. Jón Garðar er MBA og hefur starfað sem rekstrar- og stjórnunarráðgjafi frá árinu 1997, fyrst sem meðeigandi hjá KPMG en í eigin félagi frá árinu 2004.

Þá kemur fram í tilkynningunni að breytingar á yfirstjórn félagsins nú eru liður í undirbúningi á sölu félagsins sem fyrirhuguð er á fyrri hluta næsta árs.