Hrávörurisinn Rio Tinto hefur greint frá því að forstjóri fyrirtækisins, Sam Walsh, muni stíga til hliðar í júlí og að eftirmaður hans verði Jean-Sébastien Jacques, sem hefur verið framkvæmdastjóri kopar- og koladeildar Rio Tinto.

Í frétt Wall Street Journal segir að mannabreytingin sé merki um að fyrirtækið geti verið að rísa á ný eftir áralanga erfiðleika vegna lækkana á hrávörumörkuðum.

Brotthvarf Walsh er sagt hafa komið á óvart, en hann hefur stýrt Rio Tinto í þrjú ár. Hefur hann lagt áherslu á að koma böndum á útgjöld hjá fyrirtækinu með því að skera niður og með því að leggja meiri áherslu á járnframleiðslu, sem hafi skilað fyrirtækinu mestri framlegð.

Þrátt fyrir þetta skilaði Rio Tinto 866 milljóna dala tapi í fyrra, einkum vegna lækkana á járngrýtisverði og verði á öðrum málmum.