Nýr stjórnarformaður spænsku fjármálasamstæðunnar Santanter Group, Ana Botin, hefur skipt út forstjóra fyrirtækisins og mun Jose Antonio Alvarez taka við af Javier Marin, sem stýrt hefur fyrirtækinu í tæp tvö ár. Alvarez hefur undanfarinn áratug verið fjármálastjóri Santander. Þá skipaði Botin, sem tók við sem stjórnarformaður fyrir tveimur mánuðum, þrjá nýja óháða meðlimi í stjórn bankans. Santander er stærsti banki Evrópu ef miðað er við markaðsvirði.

Í frétt BBC er haft eftir Chris Wheeler, sem greinir fjármálamarkaði, að ákvörðunin hafi ekki komið á óvart, því ljóst hafi verið að Botin vildi setja mark sitt á fyrirtækið og halda stjórnartaumunum í sínum höndum sem starfandi stjórnarformaður. Gerir hann ráð fyrir því að ágreiningur hafi verið milli hennar og Marin um stefnu bankans.