William Fall, fyrrum forstjóri Alþjóðasviðs Bank of America, tekur við starfi forstjóra Straums-Burðaráss fjárfestingabanka hf. Friðrik Jóhannsson, sem hefur verið forstjóri bankans frá því í júní 2006, mun starfa náið með William á næstu mánuðum til að tryggja að forstjóraskiptin gangi greiðlega. Þetta kemur fram í tilkynning

William Fall var forstjóri Alþjóðasviðs Bank of America frá árinu 2001, þar sem hann hafði yfirumsjón með og bar ábyrgð á allri starfsemi bankans utan Bandaríkjanna; hann mótaði og byggði upp ólík svið bankans, allt frá viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi til fyrirtækja- og millibankastarfsemi, í 18 löndum. Þessi starfsemi gat af sér verulegar rekstrartekjur og yfir 20% arðsemi eigin fjár fyrir bankann, sem er annar stærsti banki heims.

William gekk til liðs við Bank of America árið 1995 og bar ábyrgð á fjölda tekjusviða áður en hann var skipaður forstjóri Alþjóðasviðs bankans. William starfaði áður fyrir Westpac Banking Corporation og Kleinwort Benson. Hann er með meistarapróf í náttúruvísindum frá Cambridge-háskóla.

Björgólfur Thor Björgólfsson, formaður stjórnar Straums-Burðaráss segir í tilkynningu:

?Það er mér mikið gleðiefni að William skuli hafa ákveðið að ganga til liðs við Straum-Burðarás. Hann hefur til að bera víðtæka reynslu úr starfi sínu hjá Bank of America, þar sem hann leiddi alþjóðlega uppbyggingu á einum stærsta banka veraldar. Ráðning Williams sem forstjóra Straums-Burðaráss markar mikilvæg tímamót í umbreytingu bankans í fjárfestingabanka sem er samkeppnishæfur á alþjóðamörkuðum og með sterka stöðu á Norðurlöndum. Ég er sannfærður um að William er rétti maðurinn til að leiða bankann til enn frekari vaxtar.

Stjórn Straums-Burðaráss vill þakka Friðriki Jóhannssyni fyrir mikilvægt framlag hans til vaxtar bankans. Friðrik hefur byggt upp traustan grunn fyrir áframhaldandi vöxt Straums-Burðaráss á alþjóðlegum vettvangi og leitt bankann í átt að því marki að gera hann að alþjóðlegum fjárfestingabanka. Framþróun Straums-Burðaráss hefur verið hröð undanfarið ár og einsýnt er að nærri öllum þeim markmiðum sem sett voru í Ársskýrslu 2006 fyrir næstu þrjú ár verður náð á árinu 2007. Það er okkur ánægjuefni að Friðrik mun vera áfram og tryggja þar
með skilvirka yfirfærslu.?

?Ég er mjög ánægður með að ganga til liðs við þennan kraftmikla fjárfestingabanka," segir William Fall í tilkynningu. "Straumur-Burðarás hefur gríðarleg sóknarfæri: fáir fjárfestingabankar á Norðurlöndum geta byggt framtíðarvöxt sinn á jafn sterkum efnahagsreikningi. Ég mun halda áfram að vinna að, og í samræmi við, stefnu bankans og ég hlakka til að verða hluti af framtíð Straums-Burðaráss.?