Forstjóraskipti verða hjá sænska bílaframleiðandanum Volvo AB þann 1. september næstkomandi. Þá mun Olof Persson taka við af núverandi forstjóra félagsins, Leif Johansson. Volvo er annar stærsti framleiðandi vörubíla í heiminum.

Í tilkynningu sem send var fjölmiðlum í dag segir að Persson sé rétti maðurinn til að taka við félaginu. Hann er núverandi yfirmaður vinnuvéladeildar Volvo. Þar hefur hann náð góðum árangri og segir í yfirlýsingunni að hann muni halda áfram að bæta árangur félagsins í heild sem forstjóri þess.

Leif Johansson tilkynnti í desember sl. að hann ætli sér að hætta sem forstjóri um næsta sumar. Hann hefur stýrt félaginu í 14 ár.