Sigurður Arnar Sigurðsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, hefur látið af störfum hjá fyrirtækinu en við stöðu hans tekur Árni Stefánsson, sem áður starfaði sem framkvæmdastjóri Bílanausts.

Í tilkynningu frá Húsasmiðjunni kemur fram að Sigurður Arnar hafi ákveðið að „leita nýrra tækifæra“ eins og það er orðað, eftir þriggja ára starf hjá Húsasmiðjunni. Helgi Magnússon, stjórnarformaður Húsasmiðjunnar, þakkar Sigurði Arnari fyrir vel unnin störf og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi eftir því sem fram kemur í tilkynningunni.

Fram kemur að Árni Stefánsson hefur lokið MBA námi í alþjóðastjórnun fá Háskólanum í Reykjavík og að hann hafi mikla reynslu af stjórnun sem og sölu- og markaðsmálum. Hann var sem fyrr segir áður framkvæmdastjóri Bílanausts og þar áður framkvæmdastjóri vöru- og rekstrarsviðs N1.