Rætt hefur verið um það innan stjórnar Skipta um nokkurt skeið að skipta um forstjóra í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar. Eins og greint var frá fyrr í dag hefur Steinn Logi Björnsson , forstjóri Skipta, hætt störfum hjá fyrirtækinu eftir rúmlega tveggja ára starf þar. Hann stýrði m.a. rekstrarlegri og fjárhagslegri endurskipulagningu Skipta, sem er móðurfélag Símans, Mílu og tengdra fyrirtækja, og endurfjármögnun félagsins í framhaldinu. Vinnunni lauk í sumar.

Óskar Hauksson, fjármálastjóri Skipta, tekur við af Steini Loga sem staðgengill forstjóra þar til nýr forstjóri verður ráðinn.

Í bígerð hjá Skiptum er stefnumótunarvinna sem stefnt er á að leiði til skráningar Skipta á markað innan næstu tveggja ára, jafnvel á næsta ári. Þeir sem VB.is hefur rætt við og tengdir eru stjórn fyrirtækisins og utan hennar telja það hafa verið rétta ákvörðun að skipta um forstjóra nú frekar en síðar hafi það verið uppi á teningnum - í það minnsta áður en farið er lengra í stefnumótunarvinnunni. Sá muni leiða fyrirtækið á markað. Auglýst verður eftir nýjum forstjóra Skipta í næstu viku.

Vildi skipta um forstjóra

Viðskiptablaðið greindi frá því í júní að óvíst væri um stöðu Steins Loga hjá Skiptum í kjölfar endurskipulagningarinnar og hafi verið rætt óformlega um málið utan stjórnar félagsins. Blaðið vísaði m.a. til þess að í byrjun árs hafi þau Helgi Magnússon, þá stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LV) og nú varaformaður LV, og Heiðrún Jónsdóttir, stjórnarformaður Gildis lífeyrissjóðs, tekið sæti í stjórninni ásamt fleirum.

Blaðið sagði jafnframt að Helgi hafi átt frumkvæði að því að láta skipta um forstjóra og viðrað þá hugmynd við aðra í stjórninni. Meirihluti stjórnar Skipta hafi ekki tekið vel í hugmyndina á þeim tíma.