Steinn Logi Björnsson er hættur sem forstjóri Skipta, móðurfélags Símans, Skjásins og tengdra félaga. Hann hefur gegnt starfinu frá apríl 2011 og þar stýrði hann m.a. rekstrarlegri og fjárhagslegri enduskipulagningu Skipta og endurfjármögnun félagsins í framhaldinu. Steinn Logi segist ekki hafa átt frumkvæði að starfslokum en segir ákvörðun stjórnar ekki alfarið hafa komið á óvart.

„Ég tel ákvörðunina ekki rétta og allar tölur og allt sem er mælanlegt gaf ekki tilefni til þess að gera breytingar,“ segir Steinn Logi. Samkvæmt honum voru það orð stjórnar að vel hafi gengið í hans stjórnartíð en augljóst sé að ágreiningur hafi verið um stöðu hans innan stjórnar. Steinn Logi segist ekki vera kominn í annað starf og óljóst hvað muni taka við hjá sér.

Óskar Hauksson, fjármálastóri Skipta, hefur tekið við sem staðgengill forstjóra þar til búið er að ganga frá ráðningu eftirmanns .

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .