„Við viljum efla fréttastofuna, efla sjálfstæði hennar og auka hlut kvenna í fréttaskrifum. Með þessu á næstu vikum og mánuðum ætlum við að einfalda skipulag fréttastofunnar og lækka kostnað við yfirbyggingu. Þetta ætlum við að vinna með stjórnendum og starfsmönnum fréttastofunnar,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365 miðla í samtali við vb.is.

Spurður um hvað þetta þýði segir Sævar að stjórnendum verður fækkað. Í samræmi við það hefur Mikael Torfason hætt sem aðalfréttastjóri 365 miðla og Kristín Þorsteinsdóttir útgefandi tekið tímabundið við starfi hans. Sævar staðfestir að Ólafi Þ. Stephensen hafi verið áfram boðið starf ritstjóra Fréttablaðsins. Ekki liggi fyrir hver ákvörðun hans hafi verið og hafi Ólafur ekki sagt starfinu upp.

„Það er tímabundið fyrirkomulag á meðan við erum að vinna að þessum breytingum. Síðan mun hún þegar breytingaferlinu lýkur eftir fáeina mánuði mun hún fara úr hlutverki aðalritstjóra og verða útgefandi á ný.“

Ekki liggur fyrir hvernig skipulagið verður og til skoðunar að starf aðalritstjóra verði lagt niður, að sögn Sævars.