Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, lætur af störfum hjá félaginu samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Eins og áður hefur komið fram, hafa Fjarskipti, móðurfélag Vodafone, og 365 miðlar undirritað samning um kaup Fjarskipta á öllum eignum og rekstri 365, að undanskildum eignum er varða útgáfu Fréttablaðsins á 3.125 til 3.275 milljónir króna.

Sævar Freyr lætur strax af störfum og tekur við störfum sem bæjarstjóri á Akranesi. Þetta staðfestir hann í samtali við Viðskiptablaðið. Ingibjörg Pálmadóttir, stjórnarformaður 365, tekur við stöðu forstjóra 365 þar til að Samkeppniseftirlitið hefur farið yfir kaupin.

„Gulur í gegn“

„Þetta leggst alveg gríðarlega vel í mig. Ég er búinn að takast á við fjarskipta- og fjölmiðlabransan núna í 10 ár sem forstjóri og er búinn að vera í þessum geira í rúm 20 ár. Mér fannst orðið tímabært að venda kvæði mínu í kross og takast á við nýjar áskoranir. Það er sem heillar mig jafnmikið og það þegar þessi möguleiki kom upp; að geta þjónustað íbúa og fyrirtækin á Akranesi í bænum sem ég elska svo mikið og hef búið í,“ segir Sævar Freyr.

„Ég er alveg gulur í gegn, þegar kemur að fótboltanum og hef komið að ýmsum öðrum málum innan bæjarins,“ bætir hann við.

Erfitt að kveðja fólkið

Spurður hvernig tilfinningin sé að yfirgefa 365 miðla á þessum tímapunkti segir Sævar: „Það er alltaf erfitt að kveðja fólkið. Þetta er yndislegt fólk sem starfar í þessu. Maður kveður það með söknuði. Þetta er einstakur vinnustaður með fólki sem leggur gríðarlega mikið á sig til að flytja fólki fréttir, afþreyingu og fjarskiptaþjónustu. Ég fer mjög stoltur frá borði þegar við erum að ljúka þessum kafla, að geta gengið frá þessum kaupsamningi við Vodafone,“ segir hann.

Sævar Freyr tók við starfi forstjóra hjá 365 miðlum árið 2014, en áður var hann forstjóri Símans í sex ár.

Nýverið var Regína Ástvaldsdóttir, fyrrum bæjarstjóri á Akranesi, ráðin í stöðu sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.