Helgi Rúnar Óskarsson og Bjarney Harðardóttir keyptu um mánaðamótin 51% hlut í Sjóklæðagerðinni. Helgi Rúnar er forstjóri fyrirtækisins. Sjóklæðagerðin á fyrirtækin 66°Norður og Rammagerðina. Það var SIA I, sjóður á vegum sjóðastýringarfyrirtækisins  Stefnis sem seldi hlutinn. Stefnir er dótturfyrirtæki Arion banka. Hvorki hafa fengist upplýsingar um ástæður þess að sjóðurinn seldi hlutinn né hvert kaupverðið var.

Athafnamaðurinn Sigurjón Sighvatsson átti allt hlutafé Sjóklæðagerðarinnar en seldi um mitt síðasta ár rétt rúman helming fyrirtækisins til sjóðs Stefnis og félagsins Hrós ehf, sem er í eigu Helga Rúnars og Bjarneyjar. Sjóðsfélagar í SIA eru að 2/3 hlutum nokkrir af stærstu lífeyrissjóðir landsins. Afgangurinn, 1/3 eru einstaklingar. Sigurjón á enn 49% hlut í Sjóklæðagerðinni. Eignahlutur Sigurjóns er skráður á félagið EGUS. Félagið er skráð á Tortóla á Bresku jómfrúreyjum.

Sjóður Stefnis á eftir viðskiptin hluti í Sjóvá og Jarðborunum. Hann átti jafnframt 8,5% hlut í Högum. Um mánaðamótin var hlutunum í Högum deilt út til sjóðsfélaga.

DV fjallaði ítarlega um viðskiptin með Sjóklæðagerðina í fyrra og tengsl fyrirtækisins við Íslandsbanka í gegnum tíðina. Þar kom m.a. fram að Helgi Rúnar, sem tók við forstjórastólnum í fyrirtækinu í febrúar í fyrra, hafi verið framkvæmdastjóri mannauðssviðs Glitnis frá árinu 2006 og þar til bankinn fór í þrot haustið 2008. Þá var Bjarney yfirmaður markaðs- og viðskiptadeildar Glitnis fyrir bankahrun. Hún hætti störfum hjá Íslandsbanka, arftaka Glitnis,  í nóvember árið 2010.