*

mánudagur, 6. desember 2021
Erlent 21. maí 2020 12:42

Forstjóri AGS: Bankar borgi ekki arð

Forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins brýnir fyrir bönkum heimsins að borga ekki út arð í heimskreppunni sem nú gengur yfir.

Ritstjórn
Kristalina Georgieva, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
epa

Kristalina Georgieva, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, brýnir fyrir stjórnendum og eigendum banka heimsins að greiða ekki út arð eða kaupa eigin bréf í núverandi efnahagsástandi. Georgieva segir að bankarnir leiki nú lykilhlutverk í uppbyggingu hagkerfa heimsins vegna kreppunnar sem nú gengur yfir í grein sem hún skrifar í Financial Times

Kreppan verði djúp á þessu ári og hagkerfi heimsins nái sér líklega ekki fullum bata á næsta ári. Því sé nauðsynlegt að bankarnir hafi rúma eiginfjár- og lausafjárstöðu. 30 kerfislægu mikilvægu bankar heimsins greiddi hluthöfum sínum 250 milljarða dollara með arðgreiðslum og kaupum eigin bréfa í fyrra. Í ár ættu þau að halda því fé á efnahagsreikningnum. 

Georgieva segir að það kunni að koma illa við einhverja hluthafa, en brýnna sé að halda fénu inn í bankakerfinu. Seðlabankar og stjórnvöld víða um heim hafa þegar gripið til víðtækra aðgerða til að draga úr skaðanum sem kreppan hefur valdið. Slakað hafi verið á kröfum til banka og þeim veitt lausafjárstuðningur. Nú þurfi þeir að gera sitt til að styðja við hagkerfi landanna. 

Það muni koma sér betur fyrir hluthafana að bankarnir standi vel eftir kreppuna. Þá séu líkur á að þeir geti greitt eigendum þeirra út meira fé en ella þegar efnahagsáfallið er liðið hjá.

Englandsbanki bað banka þar í landi til  að greiða hvorki út arð né bónusa til stjórnenda í mars. Þá hefur Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagt að stuðningur á borð við að losa um eiginfjárauka bankanna sé með því skilyrði að þeir greiði ekki út arð á þessu ári.