Nái bandarískir þingmenn ekki saman um að hækka skuldaþak bandaríska ríkisins á fimmtudag gæti svo farið að Bandaríkin lendi í kjölfarið í greiðsluþroti og standi ekki við skuldbindingar sínar. Þessi keðjuverkun gæti valdið því að heimshagkerfið keyri á ný inn í kreppu, að mati Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS).

Hún varaði við áhrifunum á ársfundi AGS sem nú stendur yfir í Bandaríkjunum.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir fleiri vara við vandræðaganginum í Bandaríkjunum og áhrifum af töfum á því að Bandaríkin hækki skuldaþak ríkisins svo ríkið geti staðið við skuldbindingar sínar. Það gerði jafnframt Jim Yong Kim, forstjóri Alþjóðabankans, um helgina og þrýsti hann á að bandarískir þingmenn bretti upp ermarnar.