Jakob Sigurðsson, forstjóri Alfesca, opnaði afleiðumarkað með laxaafurðir, Fish Pool, á sjávarútvegsýningunni í Brussel í gær en Alfesca er einn stærsti kaupandi á laxi í Evrópu. Helga Pedersen, sjávarútvegsráðherra Noregs, flutti ávarp áður en Jakob opnaði markaðinn formlega.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að Fish Pool AS er alþjóðlegur afleiðumarkaður sem settur er á stofn fyrir viðskipti með lax en sams konar markaðir eru þekktir í viðskiptum með vörur eins og kaffi og ávexti. Viðskipti með lax eru sífellt að aukast og ljóst að mjög óstöðugt verðlag hefur neikvæð áhrif á aðila markaðarins. Afleiðuviðskipti með lax skapa meiri stöðugleika og ýta undir frekari vöxt á markaðnum, öllum til góða.

?Afleiðumarkaður með lax gefur Alfesca tækifæri til að stjórna áhættuþætti þessara viðskipta mun betur, en fyrirtækið er einn stærsti kaupandi á norskum laxi í Evrópu. Við eigum reyndar eftir að sjá hvort fyrirtæki taki almennt þátt í markaðnum en ef hann verður stór og öflugur, sem viðbrögð markaðsaðila gefa fyrirheit um, getum við stýrt mikilvægum áhættuþætti í rekstri okkar. Öflugur afleiðumarkaður skapar meiri stöðugleika í laxarækt og kemur öllum markaðsaðilum til góða,? segir Jakob Sigurðsson, forstjóri Alfesca.