„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hlutabréfamarkaðir á heimsvísu hrynja,“ sagði Daniel Zhang, forstjóri kínverska fyrirtækisins Alibaba í tölvupósti til starfsmanna fyrirtækisins í gær. „Þetta er heldur ekki í síðasta skipti sem það gerist. Ég vona að allir geti fært athyglina frá hlutabréfamarkaðnum og til viðskiptavinanna.“

Alibaba féll um 3,5% í viðskiptum gærdagsins og lokaði í 65,8 dollurum hlut en útboðsgengi félagsins þegar það var skráð á Kauphöllina í New York í september á síðasta ári var 68 dollarar á hlut. Í viðskiptum dagsins í dag hefur verðið hækkað á ný og stendur í um 69 dollara á hlut.

Markaðsvirði fyrirtækisins hefur fallið um 128 milljarða frá því að það náði sínum hæstu hæðum í nóvember á síðasta ári en þá stóð hlutabréfaverðið í 119,15 dollurum á hlut.