Tim Cook forstjóri Apple segir marga spennandi möguleika í boði í tengslum við Apple TV.

Apple TV tengist núna sjónvarpi og er orðrómur um að fleiri nýjungar verði kynntar í byrjun næsta árs sem muni gjörbylta hinu hefðbundna sjónvarpsáhorfi. Þetta kemur fram á vef Reuter.

Tæknispekúlantar segja Apple-sjónvarpið verða á bilinu 42 til 55 tommur og kosta á bilinu 1.500 til 2.00 Bandaríkjadali. Það gæti legið á bilinu 440 til tæplega 580 þúsund króna hingað komið. Netmiðillinn CNET hefur eftir Gene Munster, greinanda hjá bandaríska fjárfestingarbankanum Piper Jaffray, sem sérhæfir sig í tæknimálum, að tækið muni ekki snúa sjónvarpsmarkaðnum á haus fyrsta kastið og valda þeirri byltingu í sjónvarpáhorfi og sumir búist við. Þvert á móti muni þetta nýja sjónvarp geta gert flest það sem þau sjónvörp gera sem fólk er með inni í stofu hjá sér. Möguleikarnir munu hins vegar vera fleiri enda verði líklega hægt að tengja sjónvarpið við ýmis tæki og tól frá Apple.

Tim Cook sem tók við af Steve Jobs sem forstjóri Apple segist eyða minni tíma en forveri sinn gerði í markaðsmál og hönnun. Hinsvegar hafi hann lært það af honum að horfa fram á veginn og hugsa ekki of mikið um fortíðina. Forstjórinn segist áhugasamur um að fleiri þættir framleiðslu og vinnslu fari fram í Bandaríkjunum í stað Asíu.

Tim Cook
Tim Cook