Segir Reuters hann þar með styðja tillögur sem nú séu til skoðunar um endurskoðun á því hvar skattleggja ætti fyrirtæki eins og hans. Mörg fjölþjóðafyrirtæki hafa löngum bókað stóran hluta hagnaðar síns í ríkjum með lægri, og þá væntanlegri hagkvæmari skattkerfi og ódýrari ríkisrekstur, frekar heldur en hvar flestir viðskiptavinirnir séu staðsettir.

Er vöxtur stórra netfyrirtækja eins og Apple sögð hafa ýtt alþjóðlegum skattheimtureglum út á brúnina, sem hafi orðið til þess að OECD samtökin hafi ýtt úr vör átaki til endurskoðunar á reglunum. Segir Tim Cook að þeir vilji að skattheimtan sé sanngjörn en skilji að það sé flókið að ákveða hvernig skattleggja ætti fjölþjóðleg fyrirtæki eins og hans.

„Ég held að allir viti að þær þurfi að verða endurskoðaðar, ég myndi alla vega verða síðasti maðurinn til að segja að núverandi kerfi, eða kerfi fortíðarinnar væri hið fullkomna kerfi. Ég er vongóður og bjartsýnn á að OECD finni eitthvað,“ hefur Reuters eftir Cook.

Ummælin lét hann falla við móttöku verðlauna frá ríkisstofnun á Írlandi sem ber ábyrgð á því að hvetja erlend fyrirtæki til að fjárfesta í landinu. Eru þau veitt vegna framlags fyrirtækjanna.

Apple er eitt af stærstu fjölþjóðafyrirtækjum með starfsemi á Írlandi, eða með um 6 þúsund starfsmenn, en bæði félagið og írska ríkisstjórnin hafa þurft að standa í málaferlum við ESB sem fyrirskipaði að Apple þyrfti að greiða 13 milljarða evra, eða sem nemur næri 1.800 milljörðum íslenskra króna, í aukna skatta.

Byrjað var að taka áfrýjun málsins fyrir í september en málaferlin gætu tekið mörg ár, og sagði Cook að ekki ætti að breyta lögunum afturvirkt. Jafnframt kallaði hann eftir frekari reglum um persónuvernd, þar sem það væri ljóst að fyrirtæki myndu ekki hafa eftirlit með sjálfum sér í þeim málum.

„Við vorum einna fyrst til að sýna GDPR stuðning, við teljum það almennt hafa verið mjög góða reglu, ekki bara fyrir Evrópu. Við teljum reglurnar nauðsynlegar en ekki nægjanlegar. Þið verðið að fara lengra til að koma persónuvernd á þann stað sem hún ætti að vera.“