David Brennan, forstjóri evrópska lyfjarisans AstraZenece, er hættur hjá fyrirtækinu. Sama máli gegnir um Lous Schweitzer, stjórnarformann fyrirtækisins. Ástæðan er óánægja hluthafa með afkomu fyrirtækisins á síðasta ári og kröfðust þeir að skipt yrði um menn í brúnni.

Tekjur fyrirtækisins drógust saman um nærri því 40% á síðasta ársfjórðungi og hefur gengi hlutabréfa þess hrunið það sem af er árs.

Ársfundur fyrirtækisins er í dag og mótmæltu hluthafar því hvernig fyrirtækinu hafi verið stýrt.

Brennan hefur vermt forstjórastól AstraZenece síðastliðin sex ár. Fjármálastjóri fyrirtækisins mun taka tímabundið við störfum hans á meðan eftirmanns er leitað, að því er fram kemur í netútgáfu breska dagblaðsins Telegraph. Blaðið segir Brennan reyndar hafa íhugað það í einhvern tíma að hætta störfum og hafi hann tilkynnt stjórn fyrirtækisins áform sín í gær.