Sala á eldsneyti til einstaklinga hefur dregist saman á milli ára. Guðrún Ragna Garðarsdóttir, forstjóri Atlantsolíu, segir fyrirtækið hafa þrátt fyrir allt haldið sinni hlutdeld á olíumarkaði. Hún gerir ekki ráð fyrir því að bensínsala muni almennt aukast mikið næstu misserin. Meiri líkur eru á að sala á dísilolíu taki við sér á ný þegar líf færist á ný í verktakabransann.

Velta Atlantsolíu í fyrra nam 7,4 milljörðum króna og er það um 500 milljóna króna aukning á milli ára. Aukin velta skýrist að stórum hluta af hækkun á eldsneytisverði.

Einstaklingar eru í meirihluta viðskiptavina Atlantsolíu. Guðrún Ragna segir að rétt eftir hrun hafi fyrirtækið þó fundið fyrir samdrætti í dísilolíusölu sem kunni að skýrast af minni umsvifum atvinnulífsins. Fyrir tveimur árum tók svo að draga úr sölu á bensíni til einstaklinga á sama tíma og hægt hafi á samdrætti í sölu á dísilolíu.

Landsmenn duglegri að hjóla

Guðrún Ragna segir í samtali við vb.is  nokkra þætti hugsanlega skýra samdrátt í bensínsölu.

„Kannski eru þetta kúltúrbreytingar. Sumt fólk hefur losað sig við annan fjölskyldubílinn, orðið duglegra að hjóla og keypt sér sparneytnari bíla. Framboð af sparneytnari bílum hefur aukist. Ég á ekki von á því að bensínsala aukist mikið og efast um að hún nái fyrri hæðum. Helsta spurningin er hvenær hún verður stöðug,“ segir hún og bætir við að vegna þróunar í bílamálum landsmanna þá eigi hún ekki von á stórum viðsnúningi í bensínsölu þegar efnahagslífið kemst á réttan kjöl.

„Fólk er farið að hugsa öðruvísi. Það er eðlilegt,“ segir hún.